myndaalbúmið

Jæja fór aðeins að fikta í þessu hérna og langaði að skella inn myndum úr fyrri röltum en var að velta fyrir mér þarf virkilega að hlaða inn einni og einni í einu?? svo ferlega tímafrekt, Alda snilli hvernig gerir maður þetta? ég eiginlega gafst upp á að setja inn fleiri myndir.  endilega hellið úr vizkubrunninum.

Gerður


Plan.

Vona að allir séu búnir að fá planið (líka í pósti)og farnir að liðka liði og skó. Það lenti tvisvar inni á síðunni. Gott væri Alda mín að þú hentir nú öðru út fyrir mig. Eins og þú veist er ég alltaf jafn frek tek mér tvö sæti þó mér dugi bara eitt (ennþá). Er að bresta til Keflavíkur, að sækja hann Gunna minn.Stelpur mínar, litlu systur, þið þurfið ekki að telja neinn kjark í ykkur, þetta er allt í lagi fínn tugur. Maður getur með góðri samvisku borið hinu og þessu við ef maður nennir ekki einhverju. Ég hef svo sem ekki fundið neina breytingu, er alltaf 17 eða svoleiðis. Við eigum allar góðan möguleika á að ná 90 árum eða meira.


Bakkarölt

Bakkarölt Homo Bakkus 2007

Á fögrum sumarmorgni hinn 21. júní á þeim degi sem sú alvitrasta fæddist megum við mæta upp í Rangársel á Rangárvöllum með hjólhýsi, tjaldvagna, tjöld og allt okkar hafurtask. Við höfum leyfi til að búa um okkur utan dyra fyrir hádegi og setja hafurtaskið inn í hlöðu. Við fáum síðan aðstöðuna inni kl. 16:00 enda höfum við ekkert að gera með hana fyrr því við byrjum á fyrsta röltinu kl. 13:00. 

Gönguplan:

Fimmtudagur 21. júní - ÞjórsárbakkaþrammMæting að Skarði í Landssveit kl. 13:00. Ökum til vinstri upp að fjárhúsunum og þar byrjum við röltið. Farið verður upp Þjórsárbakka og farið um Skarfanes að Lambhaga (og auðvitað vita allir hvar það er). Þetta er auðveld ganga þar sem bílar geta mætt okkur á mörgum stöðum á leiðinni. Mjög létt ganga - kjörið fyrir stutta fætur. Göngutími: ca. 5 klst.           Þeir sem vilja fjallgöngu geta gengið upp á Skarðsfjall. 

Föstudagur 22. júní – Eyðibýlaark í umsjá Hildar hinnar sextugu (tveggja tíma fyrirlestrar við hvert býli)Ekið frá Rangárseli kl. 10:00 að Tumastöðum í Fljótshlíð og áfram inn að Þríhyrningi fram hjá bæjunum Tungu og Vatnsdal og inn í Eystri-Krók. Stöðvum við eyðibýlið Reynifell, hoppum út úr bílunum og Hildur tekur við stjórninni. Gengið um eyðibýlin, síðan niður með Eystri-Rangá og alla leið niður í náttstað. Áætlaður göngutími ca. 6-7 klst. Bifreiðar komast víða að. Létt ganga – mjög lítið um brekkur.  Þeir sem vilja fjallgöngu geta gengið á Þríhyrning.  

Laugardagur 23. júní – Bjólfellsbrun Upp í bílana kl.10:00 ökum upp Rangárvellina að bænum Haukadal sem er suðvestan undir Bjólfelli. Göngum upp smá háls (20 mín.) þar sem Hekla heilsar okkur í allri sinni dýrð ef ekki er þoka. Síðan förum við umhverfis Bjólfellið  á ca. 6 tímum. Endum aftur hjá bílunum. Höfum leyfi til að fara á fáum bílum að fyrsta áningarstað en síðan er hægt að hitta hópinn við bæinn Næfurholt. Létt – miðlungs ganga (Hildur komst alla leið).Þeir sem vilja fjallgöngu geta stikað upp Bjólfellið.  

Laugardagskvöldið Brjálað stuð og geðveik gleði í náttstað. Bannað að fara í sparigallann. Grillmeistarar mæta á staðinn með fulla tunnu af kjöti og tilheyrandi og sjá um að brasa kjötið og hver og einn étur eins og hann lifandi getur. Vilji menn væta kverkarnar skulu þeir fara í viðeigandi verslanir áður en þeir koma á staðinn. Nóg vatn er í Rangánni. Vinsamlegast hafið nóg af skemmtiatriðum meðferðis því umsjónarmenn eru fremur leiðinlegt fólk.   

Sunnudagurinn 24. júní  Eftir gleði næturinnar taka allir saman föggur sínar og hverfa á brott um hádegi og keyra í átt að höfuðstaðnum í afmælisboð Hildar.   

Leiðarlýsing að Rangárseli: Ekið austur hringveg 1, yfir Þjórsárbrú (sem nú er breytt, ekki lengur hengibrú). Áfram austur fyrir Hellu og austur undir Hvolsvöll þar til komið er að skilti á vinstri hönd sem á stendur Rangársel. Munið að beygja. Akið í ca. 10 mín og beygið til hægri á réttum stað og akið þar til komið er að fjósi og hlöðu og þar skulum við búa.

 Leiðarlýsing að Skarði: Ekið austur fyrir Þjórsá að sjoppu við Landvegamót. Beygið til vinstri og akið lengi lengi lengi lengi þar til komið er að Skarði. Heimilt er að hafa tjaldvagna og þess háttar skraut aftan í bílum og geyma á meðan ekið er upp í Skarfanes. Semsagt ekki nauðsynlegt að fara að Rangárseli fyrst. 

Nokkur praktísk atriði: Munið að hafa meðferðis mat handa ykkur og öll drykkjarföng, vaðskó og flugnanet ef veður verður gott og auðvitað allt hitt sem til gönguferða þarf.  Segjum þetta gott í bili. Spyrjið ef nánari upplýsingar vantar.  

Með bestu kveðju, hlökkum til að sjá ykkurStekkholtshyskið       


Bakkabloggið opnar

Jæja gott fólk!

Hversu oft höfum við rætt um hvað það væri sniðugt að setja upp heimasíðu fyrir Bakkafólkið? Þar sem undirrituð er afskaplega upptekin við að leita að einhverju að gera þessa dagana (til að forðast það sem ég á að vera að gera) ákvað ég að ríða á vaðið og stofna bloggsíðu fyrir Bakkaröltið og annað sem tengist okkar ágætu fjölskyldu.

Þetta er semsagt hugsað sem vettvangur fyrir okkur öll til þess að opinbera skoðanir okkar, tilfinningar og langanir, sem og til að skiptast á upplýsingum, gamansögum og skotum. Ég hef sent aðgangsupplýsingar á þau netföng sem ég er með - ef þið eruð ekki í þeim hópi, látið mig vita og ég sendi ykkur upplýsingar um hæl!

Einnig má setja inn myndir - eða gera eins og ég hef gert, setja inn tengil á myndasíður eða aðrar síður. Ég fann bara Gulla Stef á blogginu - látið mig vita ef það eru fleiri.

Annars hvet ég ykkur til að vera dugleg að tjá ykkur (held einhvern vegin að það verði ekki vandamál) og halda upplýsingaflæðinu gangandi (verður væntanlega ekki vandamál heldur).

Alda ofurbloggari


« Fyrri síða

Höfundur

Bakkafjölskyldan
Bakkafjölskyldan
Hér er vettvangur fyrir alla þá sem tengjast hinni víðfemu Bakkafjölskyldu beint eða óbeint að blogga um hið árlega Bakkarölt.

Bloggvinir

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 394

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júní 2007
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband