Lokaskipulag Bakkarölts 2012

Sælir Bakkaröltarar nær og fjær 

Þá kemur hér lokaskipulag fyrir Bakkaröltið í Skagafirði árið 2012. 

Fimmtudagur:

Mæting í Ljósheima frá hádegi og fram eftir degi. 

17:00  Lagt af stað í göngu á Mælifellshnjúk. Það tekur um 40-50 mín að keyra þaðan sem gengið er og svo gerum við ráð fyrir 3-4 klst. í gönguna sem er meðalerfið fjallganga. Gott kvöldrölt en nauðsynlegt að hafa nesti til að seðja sísvanga Bakkamaga!  

17:00 eða síðar. Fyrir þá sem ekki treysta sér í fjallgöngu er upplagt að skoða og leika sér í Borgarsandi sem er 4 km. löng sandfjara rétt hjá Ljósheimum.  

Föstudagur:

10:00  Göngufólk og bílferjar leggja af stað í Gilsbakka þar sem gengið verður yfir í Merkigil og þaðan í Ábæ í Austurdal undir leiðsögn Gísla Rúnars sem er vanur leiðsögumaður á þessum slóðum. (700 kr. á hvern fullorðinn fyrir leiðsögnina). Farið er sem leið liggur að Varmahlíð en beygt til vinstri eins og halda eigi áfram til Akureyrar. Keyrt uns komið er að bænum Silfrastöðum en þá er beygt út á þjóðveg 759 sem liggur eftir Kjálka og keyrt að bænum Gilsbakka. Um 50 mínútna akstur frá Ljósheimum.Gísli Rúnar ætlar í gönguna um 5-6 tíma með því að njóta leiðarinnar í rólegheitum og fá fræðslu um það sem fyrir augu og eyru ber.

Fyrir kjarkaða er svo um 4 km gangur frá Ábæ að kláfi sem er yfir Jökulsá  eystri. Þeir sem eru áhugasamir um slíkan ferðamáta geta hugsanlega tekið sér far með kláfinum fram og til baka!

Þeir sem fara á bílum keyra einnig í Varmahlíð en halda áfram eftir vegi 75 með því að beygja til vinstri stuttu eftir að keyrt er í gegn um Varmahlíð. þaðan förum við á veg 752 og síðan förum við á veg 758 og sem leið liggur að Ábæ.  Gljúfrið um Austurdal er brúað rétt sunnan við bæinn Merkigil en vegurinn handan brúarinnar er ekki fær lágum fólksbílum en jeppum og jepplingum. Leiðin í Ábæ getur tekið rúmar tvær til tvær og hálfa klukkustund.

Mælum með að hafa sundfötin í bílunum og fara í sundlaugina í  Varmahlíð í bakaleiðinni. Hún er opin til kl. 21:00.

Um kvöldið etur hver úr sínum aski og  síðar er bingo í boði fyrir þá sem það vilja svo fremi að ekki verði komið allt of nálægt háttatíma!  

Laugardagur:

10:00  Ekið norður á Höfða á Höfðaströnd og gengið þaðan út í Þórðarhöfða. Hringur genginn um höfðann og sama strönd tekin í bakaleiðinni. Um 3-4 klst. ganga. Gott að hafa göngustafi eða prik þar sem kríur gætu gert okkur lífið leitt í upphafi og lok ferðar!

Fyrir þá sem ekki treysta sér í þessa göngu er upplagt að fara að  Hólum í Hjaltadal og skoða sig um þar og fara síðan á Vesturfarasetrið á Hofsósi sem er mjög skemmtilegt safn fyrir unga sem aldna. 

 Hóparnir hittast svo í nýrri og glæsilegri sundlaug á Hofsósi sem óhætt er að mæla með. Munið því að hafa sundfötin í bílnum! 

Um kvöldið er svo sameiginlegur kvöldverður kl. 19:00 en hver og einn sér um sína drykki. Að sjálfsögðu höfum við gaman saman.

Fúsa flakkara vantar nýtt heimili og að venju mun hann falast eftir því á laugardagskvöldið!  J

Er ekki einhver kominn á fullt með skipulag? 

Sunnudagur:

Allir taka sig saman í rólegtheitum eða flýti allt eftir því sem hentar hverjum og einum best. Knúsumst og/eða köstum kveðju hvert á annað og hlökkum til næsta Bakkarölts.

Aðstaðan - gisting 

Ljósheimar: Ljósheimar eru við þjóðveg 75, rétt sunnan við Sauðárkrók. Tjaldstæði eru í kringum húsið og hægt að komast í rafmagn fyrir þá sem hafa langar snúrur.  Inni í húsinu eru góðar snyrtingar en engar sturtur.  Aðgangur að litlu en fullbúnu eldhúsi og stórum veislusal sem rúmar 100 manns í sæti.  Við fáum einnig aðgang að 3-4 stórum kæliskápum.   Á annarri hæð er stórt herbergi þar sem verða dýnur á gólfi fyrir þá sem þar gista.  Þar er einnig sjónvarp fyrir fréttasjúka.   

Glæsibær: Bærinn Glæsibær er í um 7 km fjarlægð suður af Ljósheimum við þjóðveg nr. 75  (15 km frá Varmahlíð). Þar eru 7 rúm í 4 herbergjum en gestir þurfa að koma með sængurfatnað með sér.  Aðgangur að fullbúnu eldhúsi, ísskáp, stofu og heitum potti.  Húsráðandi tekur á móti fólki frá hádegi á fimmtudegi.   Búið verður að greiða fyrir gistinguna og því rukkað með uppgjöri síðar. 

Brennigerði: Bærinn Brennigerði er staðsettur í hlíð beint á móti Ljósheimum.  Þar er gist í 2ja manna uppábúnum herbergjum,  aukadýnur fyrir börn.   Aðgangur að setustofu og kæliskáp.  Greiða þarf gistingu hjá húsráðendum en þeir eru ekki með neinn posa svo hér þarf að muna eftir peningum. 

Sameiginleg máltíð á laugardagskvöldið hefst kl 19:00 og ætlum við að gæða okkur á lambakjöti með tilheyrandi meðlæti ásamt nýbakaðri eplaköku með þeyttum rjóma í eftirrétt.  Hver og einn sér um sína drykki. 

 Verðskrá  
   
Gisting  
Ljósheimar, tjaldbúðir1.200 kr.hver nótt fyrir 20 ára og eldri, frítt fyrir aðra
Ljósheimar, flatsæng á 2. hæð2.000 kr.hver nótt fyrir 20 ára og eldri
Glæsibær, svefnpokapláss3.000 kr.hver nótt fyrir hvert rúm
Brennigerði, uppábúin rúm5.800 kr.hver nótt fyrir 13 ára og eldri
   
Matur á laugardagskvöldi  
Eldri en 12 ára3.500 kr. 
6-12 ára500 kr. 
0-5 ára0 kr. 
   
Annað  
Aðstöðugjald fyrir þá 500 kr.Heildargjald fyrir hvern fullorðinn
sem ekki gista í Ljósheimum  
Leiðsögn í Merkigilsgöngu       700 kr.13 ára og eldri

Heildaruppgjör verður sent út til hvers og eins núna eftir helgina.

Hlökkum til að sjá ykkur 

Kveðja             

Kristjana og Guðbjörg (Kvartanir berist til Höllu J)


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Kannski rétt að bæta því við að það er að sjálfsögðu sturtuaðstaða bæði í Glæsibæ og Brennigerði fyrir þá sem þar gista.

kv. Guðbjörg

Guðbjörg (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 15:05

2 identicon

Takk - takk fyrir þetta vel útfærða skipulag og metnaðarfulla dagskrá.

Hildur Gunnl. (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 15:32

3 identicon

Þetta er glæsilegt hjá ykkur og gönguferðirnar spennandi. Kona nokkur héðan frá Egilsstöðum gekk á Mælifellið í vikunni. Hún varaði mig við að grjót væri mjög laust í fellinu og á tímabili skriðu menn á fjórum fótum. Jafnlangan tíma tók að komast niður og fara upp vegna lausagrjóts. Hún hefði ekki tekið börn undir 8 ára aldri með sér.

Hlakka til röltsins og samverunnar.

Kv. Jóney

Jóney (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 21:29

4 identicon

Hmmm...   það eru tvær merktar leiðir upp á Mælifellið, veistu hvora leiðina hún fór?

kv. Guðbjörg

Guðbjörg (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 21:58

5 identicon

Konan fór sunnanmegin. Hún segir leiðina vel merkta og greinilega. Lausagrjótið er efst. Hún var með mæli á sér og sagðist hafa gengið 3,5km og hækkunina rúma 600m. Svo þetta verður létt og löðurmannlegt fyrir Bakkaröltara sem er komnir þokkalega á legg.

Vona að ég hafi ekki hrætt neinn með fyrra skeytinu.

Kv. Jóney

Jóney (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 14:21

6 identicon

Um Mælifellshnjúk:

"Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d. upp eftir röðlinum að norðan og eins með því að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Langbesti kosturinn er þó að ganga á hnjúkinn að vestan, upp úr Mælifellsdal. Þar hefur nú verið stikuð prýðileg og auðfarin leið á fjallið og er hægt að mæla með henni." (Árbók Ferðafélags Íslands 2012, bls. 166)

Síðast þegar undirrituð vissi stóð til að velja "langbesta kostinn". Hlakka til að hitta Bakkaröltara í Skagafirði.

Mbk, Hildur

Hildur Gunnl. (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 17:34

7 identicon

Mikið líst mér vel á þetta enda var ekki von á öðru frá þeim systrum. Hlakka mikið til að hitta ykkur og rölta og brölta (mér þykir líklegt að það eigi við á morgun).  Gerði könnun um opnunartíma í Varmahlíð og komst að því að grillið er lokað kl. 22:00 en annað opið til 23:30. Þetta var gert í eiginhagsmunsskyni en sjálfsagt að deila upplýsingum. Leiðin til baka frá Mælifelli og Austurdal liggur þar um hlað.

Sjáumst spræk.

Valdís

Valdís (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 10:36

8 identicon

Mikið er gott að vita til þess að fleiri hugsi sér gott til veitingastaða Skagafjarðar.  Við verðum þá tvær sem höfum ekki staðið sveittar í aksturs- "keppninni" 

Guðbjörg (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 13:03

9 identicon

Það átti að sjálfsögðu að standa baksturs- keppni hér að ofan :)

Guðbjörg (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 13:06

10 identicon

Kræst - ísbjarnarkvikindið fær sér örugglega langan sundsprett og kemur svo að landi í Þórðarhöfða á laugardaginn. Biggi H. viltu vera svo vænn og koma með hólkinn með þér, þó sé ekki nema til að róa eldri ísbjarnarhræddar konur

Kv.

V f

Valdís frænka (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bakkafjölskyldan
Bakkafjölskyldan
Hér er vettvangur fyrir alla þá sem tengjast hinni víðfemu Bakkafjölskyldu beint eða óbeint að blogga um hið árlega Bakkarölt.

Bloggvinir

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband