11.7.2007 | 10:15
Hugleiðingar úr Danaveldi.
Enn segi ég takk fyrir síðustu samverustundir. Það er ómetanlegt að eiga gott venslafólk sem dvelur saman nokkra sólarhringa á ári og alltaf jafn gaman. Þetta er einn af okkar föstu punktum í tilverunni. Eftir frábæra sólardaga í garðinum mínum heima tók ég fram ferðatösku, setti í hana slatta af sumarklæðnaði og hélt út í Leifsstöð. Ferðinni heitið til Danaveldis til að aðstoða Kristínu og Braga á spennandi tímamótum. Einhver verður að vera hjá Gunnari Kára litla meðan litla systkinið fæðist. Ekki leiðinlegt starf. Mætti út á völl kl. 21:30 að kvöldi 8. júlí. Nota skyldi nóttina til að koma sér á milli landa. Flug er ekki mitt uppáhald en allt gekk vel, lentum kl. 5 í Köben. Fór strax til að ná í lestarmiða til Óðinsvé. Þó Danir vakni snemma var ekki búið að opna miðasöluna. Allt er komið í tæknina. Hvernig átti kona frá Íslandi á sjötugsaldri að kaupa miða úr sjálfssala í fyrsta sinn. Þetta vafðist fyrir fleirum. Upplifði mig spegilmynd af mömmu, stóð álengdar og reyndi að sjá hvernig aðrir gerðu. Endaði með samvinnu með sænskum hjónum álíka vitlausum og ég. Eftir margar tilraunir beggja föttuðum við trixið sjálfsagða. Öryggið í fyrirrúmi. Komin með miða en ekki sæti, vonandi verða fáir á ferð svona snemma, hlaup niður að lest. Æi, hvar er nú mín rétta. Svíarnir mínir hinu megin, þá er ég á réttum stað. Vingjarnleg hjón með börn á leið til Óðinsvé. Þá er bara að elta þau. Hlamma mér niður í sæti í lestinni. Nú væri gott að dotta, myndar karl með yfirvaraskegg á móti mér. Stoppum á hefðbundnum stöðum. En áður en varir er ég komin inn í miðja Hróarskelduhátíð. Ungdómurinn á heimleið, skítugur, illa lyktandi, fyllti lestina, missti sætið góða, leit á karlinn, hristum höfuðin og komum okkur út að dyrum, karlinn tók hjólið sitt en ég stóð það sem eftir var leiðar horfandi á lýðinn liggjandi þar sem hægt var. Gott að koma í Björnemosen upp í rúm að sofa. Hef notið sólar síðan, en í dag rignir.
Nú er 11. júlí runninn upp, Einar afi hefði orðið 90 ára í dag. Kristín var einmitt sett á þennan dag. Ekkert bólar á barninu nú um hádegi, en ekki er öll von úti því síðasta fæðing gekk svo hratt að hún á að hafa sig upp á spítala með fyrrafallinu. Svona eru hríðskotabyssurnar. Bæti við þetta síðar og hugsa heim í góða veðrið.
Bestu kveðjur til ykkar allra.
Hulda fr. stödd í Danmörku
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtilegar hugleiðingar konu á sjötugsaldri, þær geta næstum allt sem þeim dettur í hug. Hugurinn hvarflaði óneitanlega rúm sex ár aftur í tímann. Óbrigðult ráð er að ganga krílið niður í notalegri skógargöngu ... grandalausir verðandi foreldrar í þriðja sinn lögðu af stað í þægilega síðdegisgöngu 2. júní 2001 og um kvöldið fæddist stúlkan munnstór, krumpuð, mjúk og yndisleg. Vorum svo heppin að geta hringt í íslenska konu sem sat þessa stuttu stund hjá systrunum tveimur ... man líka hvað ég var fegin að stúlkan fæddist fyrir miðnætti að íslenskum tíma svo enginn myndi ræða það að dagsetningin væri ekki rétt
Gangi ykkur vel
Kv. úr skítsæmilegu júlíveðri á Egilsstöðum
Jóney (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 13:33
já þessi blessuð börn eru snillingar í að koma þegar minnst varir upplifði það fyrir rúmum 6 vikum síðan -úff hvað tíminn líður en elsku Kristín, Bragi og allur sá leggur af Bakkarössum til hamingju með litlu snúlluna sem fæddist í morgun, hlakka til að sjá myndir
Gerður (IP-tala skráð) 12.7.2007 kl. 20:57
Enn frá danskinum. Gaman að fá viðbrögð Jóney og Gerður. Dagurinn í gær var einn af þessum góðu dögum. Hvaða dagar eru góðir? Jú, þeir sem gefa eitthvað af sér. Árla morguns fann Kristín að fæðing væri í nánd. Að fenginni reynslu bað hún um að fá að koma strax á fæðingadeildina. Þrem tímum seinna fæddist litla daman, 15 merkur og 53 cm, dökkhærð og kringluleit og eins og áður fegurra barn hefur vart sést. Hvar endar þessi fegurð? Við Gunnar Kári fórum að skoða í gær. Stóri bróðir var hrifinn af systur sinni og klappaði henni og söng vögguvísu fyrir hana. Öllum heilsast vel. Amma og stóri bróðir sváfu saman í hjónarúminu í nótt en hin á fæðingarhóteli.
Hulda amma (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 06:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.